Austurbæjarskóli, eða „Austó“ eins og unglingarnir kalla skólann, fagnar 80 ára afmæli um þessar mundir og í dag hefur verið opið hús þar sem núverandi og fyrrverandi nemendur hafa notið dagsins. Fjölmargir hafa heimsótt skólann og skoðað sýningu sem hefur verið sett upp í tilefni tímamótanna.
„Það er alveg rífandi stemning og ég er alveg afskaplega ánægður með daginn. Þetta er búið að vera mjög ánægjulegt,“ sagði Guðmundur Sighvatsson, skólastjóri Austurbæjarskóla, þegar blaðamaður mbl.is kíkti í heimsókn.
Heilmikið er að sjá og skoða. Í íþróttasalnum eru gamlir munir og námsgögn til sýnis og á veggjum skólans hafa verið hengd upp listaverk og ljósmyndir af nemendum. Dagskráin hófst kl. 8:30 í morgun og stendur til klukkan 20.
„Það er hægt að ganga hér um og rifja upp gamlar minningar. Hitta gamla vini og bekkjarfélaga sem ekki hafa sést árum saman,“ segir Guðmundur.
Hann bendir á að nú hafi verið ákveðið að halda hátíðina á virkum degi í stað helgi.
„Við erum svolítið gefin fyrir að takast á við eitthvað ögrandi. Svo nú ákváðum við að prófa að setja upp sýningu með aðstoð unglingadeildar, en vera með fulla kennslu samhliða í öllum árgöngum,“ segir Guðmundur og bætir við: „Það er bara venjulegur vinnudagur í skólanum hjá öllum.“
Mikil og góð stemning hafi skapast, bæði hjá börnunum og foreldrum. Og það var ekki að sjá annað þegar blaðamaður gekk um ganga skólans.
Níundu bekkingar seldu gestum og gangandi kaffi og kruðerí, en krakkarnir eru að safna krónum í baukinn fyrir skíðaferð á Dalvík.
Þá voru 10. bekkingar að selja boli til að styrka Þórsmerkurferð sem verður vonandi farin í vor. Bolurinn er með mynd af skólastjóranum sem á stendur: „Austó 1930-2010“.