Störfum vinnuhóps, sem kannaði hvort skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kallaði á breytingar á starfsháttum umhverfisráðuneytisins, er nú lokið. Hópurinn var skipaður af Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra.
Í niðurstöðum hópsins segir að í öllum aðalatriðum sé viðhöfð góð stjórnsýsla í ráðuneytinu. En skerpa þurfi á vitund starfsmanna um gildandi siðareglur og lagt er til að kannað verði hvort þörf sé á sérreglum fyrir starfsfólk ráðuneytisins.
Hópurinn telur að ástæða sé til að ítreka við starfsmenn mikilvægi þagnarskyldu, meðal annars með því að undirrita yfirlýsingu sem staðfestir þessa lögbundnu skyldu.
Ítreka þarf við starfsmenn þá skyldu þeirra að upplýsa yfirstjórn ráðuneytis og ráðherra um mikilvæg mál. Einnig telur hópurinn mikilvægt að skipurit ráðuneytisins sé með þeim hætti að tryggt sé að ráðherra sé upplýstur um öll mikilvægustu álitaefni á sínu málasviði og skýrar reglur liggi fyrir um hvaða stjórnarmálefni beri að leggja fyrir hann.
Vinnuhópurinn telur mikilvægt að fagmennska ríki við ráðningar starfsmanna.Í ljósi skýrslu rannsóknarnefndar Alþings taldi hópurinn rétt að árétta mikilvægi þess að ráðuneytið hugleiði jafnan hvort ástæða sé til þess í einhverjum tilvikum að ganga lengra en tilskipanir ESB kveða á um vegna íslenskra aðstæðna. Í slíkum tilvikum þurfi að huga að pólitískri stefnumótun í viðkomandi málaflokki.