Erum að ná botninum

Frá ársfundi ASÍ í dag
Frá ársfundi ASÍ í dag mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það hillir undir að við náum botni á verstu efnahagskreppu lýðveldistímans,“ sagði Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ sem kynnti nýja hagsspá ASÍ á ársfundi sambandsins. ASÍ spáir 1,7% hagvexti á næsta ári, en Ólafur Darri segir að hann verði næstum tvöfalt meiri ef farið verði út í framkvæmdir við Helguvík.

Í hagspá ASÍ fyrir næsta ár er miðað við að farið verði út í framkvæmdir við Straumsvík sem kynntar hafa verið, en ekki er reiknað með framkvæmdum við álverið í Helguvík eða orkuframkvæmdum sem því tengjast. Ólafur Darri sagði engan vafa leika á að það myndi skipta mjög miklu máli ef vinna við álverið í Helguvík færi í fullan gang. Reiknað væri með að um 1300 manns fengju vinnu meðan á framkvæmdum stæði.

„Við höfum orðið fyrir gríðarlegu áfalli,“ sagði Ólafur Darri í upphafi ræðu sinnar. „Frá hruninu erum við búin að tapa einni krónu af hverjum 10 út úr verðmætasköpuninni. Það þýðir að við höfum orðið af árlegri verðmætasköpun upp á 160 milljörðum.“

Ólafur Darri sagði að vöxturinn væri enn hægur og því yrði staða heimilanna áfram þröng. Um 12.500 manns voru án vinnu í september og Ólafur Darri sagði ljóst að áfram yrði verulegt atvinnuleysi hér á landi ef ekki tækist að auka fjárfestingu.

Árið 2006 var fjárfesting hér á landi um 600 milljarðar, en þá voru framkvæmdir á Austurlandi í hámarki og mikil þennsla á fasteignamarkaði. Í fyrra dróst fjárfesting saman um helming og í ár er spáð að fjárfesting verði um 180 milljarðar.

Ólafur Darri sagði að þetta mikla hrun í fjárfestingu hefði slæm áhrif á vinnumarkaði þegar til skamms tíma væri litið, en þegar til lengri tíma væri litið væri þetta líka slæmt því að lítil fjárfesting kæmi niður á framtíðartekjum okkar.

Ólafur Darri sagði að þrátt fyrir að gengi krónunnar hefði lækkað verulega og dregið hefði úr innflutningi værum við enn að safna skuldum í útlöndum. Hann sagði ljóst að það væri ekki hægt að „svelta sig út úr vandanum“ eins og hann komst að orði. Við yrðu að auka tekjur okkar með aukinni atvinnusköpun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert