Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að tvennt sé mikilvægast varðandi aðstoð til fátækra á Íslandi. Í fyrsta lagi að framfærsluþörfin sé metin með raunsæjum hætti og að húsnæðismál séu leyst með þeim hætti að enginn þurfi að vera á götunni. Ríkið eigi að koma að þessu málum.
„Þá er væntanlega tvennu borgið sem mestu máli skiptir á meðan fólk er að kljást við erfiðleika og komast í gegnum þá,“ sagði fjármálaráðherra þegar hann svaraði fyrirspurn Þór Saari, þingmanns Hreyfingarinnar,í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi
Farið með fólk eins og skepnur
Þór benti á að í síðustu viku hafi um 550 manns sótt sér mat til Fjölskylduhjálpar Íslands. „Í gær voru það að sögn starfsfólks miklu fleiri.“
Þór spurði fjármálaráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því að fátækt fólk verði aðstoðað með öðrum hætti en nú sé gert. T.d. með útgáfu matarkorta sem hægt sé að nota í matvöruverslunum og með útvegun á viðeigandi húsnæði þannig að matargjafir þurfi ekki að fara fram utandyra.
„Það er eins og það sé verið að koma fram við fólk eins og skepnur,“ sagði Þór.
„Mun hann beita sér fyrir breyttri forgangsröðun í fjárlagafrumvarpinu í við aðra umræðu þar sem því neyðarástandi verði mætt af alvöru. Því svona ástand þarf fyrst og fremst að mæta grunnþörfum fólks um mat og húsnæði. Og áhugamál eins t.d. hestamennska eða trúarhefðir, þó menningartengd séu, verði að mæta afgangi,“ sagði Þór ennfremur.
„Þetta er ekki ástand sem einhver einn aðili leysir með einhverjum einföldum hætti. Ég held að ríki, sveitarfélög, hjálparstofnanir og aðrir þeir sem eru að sinna þessum málum þurfi að taka höndum saman. Að sjálfsögðu er það dapurlegt að sjá fólk bíða eftir stuðningi af þessu tagi og maður veltir fyrir sér hvort velferðarnetið, öryggisnetið undir samfélaginu sé að gefa eftir með einhverjum hætti,“ segir Steingrímur.