Geta valið um endurgreiðslu eða innborgun

Íslandsbanki Fjármögnun opnaði um mánaðamótin fyrir endurútreikninga á hluta af bílalánum, bílasamningum og kaupleigusamningum í erlendri mynt í kjölfar þess að Hæstiréttur kvað upp dóm um vaxtaþátt slíkra lána. Segir bankinn, að þeir viðskiptavinir, sem hafi ofgreitt til Íslandsbanka Fjármögnunar á lánstíma og eigi rétt á endurgreiðslu, geti valið um að láta upphæðina ganga inná höfuðstól lánsins eða fá hana greidda inn á reikning. 

Rúmlega 7000 lán er að ræða í þessum fyrsta áfanga. Að sögn bankans hafa tæplega 3000 viðskiptavikir  sent inn beiðni um endurútreikning í gegnum heimasíðu bankans eða með því að hafa beint samband við starfsmenn. Um 60% þeirra, sem hafa ofgreitt, hafi ákveðið að láta endurgreiðsluna ganga inn á höfuðstól lánsins, en 40% kosið að fá hana greidda inná reikning. 

Ný lánsskjöl verða send til þeirra viðskiptavina sem hafa sent beiðni um endurútreikning og munu þau berast á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert