Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að fjöldauppsagnir hjá Orkuveitu Reykjavíkur séu nú orðnar að veruleika. Þeir segja að þetta séu mestu fjöldauppsagnir í sögu Reykjavíkurborgar.
Þeir segja jafnframt að það séu ekki síður vonbrigði að Jón Gnarr Kristinsson borgarstjóri og Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, skyldu standa þannig að málinu að reynt hafi að hrinda því í framkvæmd án þess að það kæmi til viðeigandi umfjöllunar í borgarráði eða borgarstjórn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum, sem er eftirfarandi:
„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að fjöldauppsagnir hjá Orkuveitu Reykjavíkur séu nú orðnar að veruleika. Með þessum fjöldauppsögnum hefur nýr meirihluti Samfylkingarinnar og Besta flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur horfið frá þeirri stefnu, sem mörkuð var og samþykkt af öllum flokkum í borgarstjórn Reykjavíkur haustið 2008, til að bregðast við áföllum í efnahagslífi landsins. Sú stefna fól meðal annars í sér að ekki yrði gripið til fjöldauppsagna hjá Reykjavíkurborg og fyrirtækjum hennar heldur lögð áhersla á að verja störf fastráðinna starfsmanna. Á grundvelli þessarar stefnu hefur verið hagrætt um milljarða króna á vegum Reykjavíkurborgar og náðst hefur að fækka starfsmönnum verulega án þess að grípa til fjöldauppsagna. Hjá Orkuveitunni einni hefur verið hagrætt fyrir á annan milljarð króna síðan haustið 2008 og þar hefur starfsmönnum fækkað verulega.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa unnið með núverandi meirihluta að því að halda áfram því sparnaðar- og hagræðingarátaki sem hófst hjá Orkuveitu Reykjavíkur árið 2008 og eru sammála um að æskilegt sé að lækka launakostnað fyrirtækisins enn frekar. Í stað þess að grípa til fjöldauppsagna nú, vildu þeir frekar fara þá leið að ná sparnaðarmarkmiðum til skamms tíma með því að ná samkomulagi við starfsmenn um skerðingu starfshlutfalls en ná síðan fram markmiðum um fækkun starfsmanna á nokkrum misserum eða árum með starfsmannaveltu og tilfærslum innan fyrirtækisins. Um er að ræða þrautreynda leið sem mörg íslensk fyrirtæki hafa farið á undanförnum árum með góðum árangri. Það eru mikil vonbrigði að Besti flokkurinn og Samfylkingin skuli hafna slíkri leið og velja fjöldauppsagnir.
Um er að ræða mestu fjöldauppsagnir í sögu Reykjavíkurborgar. Það eru ekki síður vonbrigði að Jón Gnarr Kristinsson borgarstjóri og Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, skyldu standa þannig að þessu pólitíska stórmáli að reynt var að hrinda því í framkvæmd án þess að það kæmi til viðeigandi umfjöllunar í borgarráði eða borgarstjórn. Þegar málið var rætt í borgarstjórn sl. þriðjudag, samkvæmt beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sá enginn borgarfulltrúi meirihlutans sér fært að taka þátt í málefnalegri umræðu um það, hvort æskilegra væri að fara leið fjöldauppsagna eða starfshlutfallsskerðingar til að fækka starfsmönnum fyrirtækisins. Tillaga Sjálfstæðisflokksins um að mildari leiðin yrði farin, var síðan felld af borgarfulltrúum meirihlutans.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja það vera eina mikilvægustu skyldu borgarstjórnar að leita allra leiða til að halda atvinnuleysi í lágmarki enda hefur það fjölmargar neikvæðar afleiðingar í för með sér. Með þessum fjöldauppsögnum bregst meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins þessum skyldum. Auk þess ganga borgarfulltrúar Samfylkingarinnar í berhögg við nokkurra mánaða gömul kosningaloforð sín, um að sérstök áhersla yrði lögð á að verja störf Reykvíkinga, kæmust þeir til valda.“
Starfsmannafélag Reykjavíkur lýsir einnig miklum vonbrigðum vegna uppsagnanna. Í ályktun frá
félaginu segir að aðrar leiðir hafi ekki verið kannaðar til hlítar, svo
sem sala eigna, gjaldtaka og hagræðing í rekstri. Félagið hefur áhyggjur
af því að starfsmenn sem hafa unnið dyggilega fyrir fyrirtækið í fjölda
ára eigi margir hverjir erfitt með að komast inn á vinnumarkað í því
ástandi sem nú ríkir.
Það er skoðun Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar að fyrst hefði þurft að kanna til hlítar aðrar leiðir og fá úr þeim niðurstöðu s.s. sölu eigna, gjaldtöku af hinni ýmsu þjónustu og aðrar hagræðingar í rekstri, ekki einungis úr kjarnastarfsemi OR heldur einnig afleiddri þjónustu fyrirtækisins, áður en kemur að svo afdrifaríkum aðgerðum sem fjöldauppsagnir eru.
Félagið hefur áhyggjur af því að starfsmenn, sem unnið hafa dyggilega fyrir fyrirtækið í fjölda ára og sagt verður upp, eigi margir hverjir erfitt með að komast inn á vinnumarkað aftur í því árferði sem nú ríkir.