Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, gagnrýndi Gylfa Arnbjörnsson forseta ASÍ harðlega á ársfundi ASÍ fyrir að hafa ekki stutt það haustið 2008 að taka verðtryggingu úr sambandi, en Gylfi var þá formaður starfshóps sem skoðaði það mál. Gylfi segist ekki vilja standa að því að skerða lífeyri launþega.
Vilhjálmur sagði í ræðu sinni að frá 2004 hafi skuldir íslenskra heimila aukist úr 877 milljörðum í 2000 milljarða. Að meðaltali skuldaði hvert heimili núna um 18 milljónir króna. Hann sagði að frá janúar 2008 hefði matarverð hækkað um 40% og kaupmáttur launa væri í frjálsu fallið.
Vilhjálmur sagði að skuldir íslenska heimila hefðu hækkað um 417 milljarða í kjölfar bankahrunsins. Verðmæti fasteigna hefði lækkað um 370 milljarða á sama tímabili. „Þennan forsendubrest, sem íslensk alþýða þessa lands gat ekki undir nokkrum kringumstæðum borið ábyrgð á, þarf að leiðrétta og það þarf að gerast í formi almennrar leiðréttingar,“ sagði Vilhjálmur.
Vilhjálmur sagði að samkvæmt göngum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefðu bankarnir fengið afslátt á skuldum heimilanna sem nemur 420 milljörðum. Hann sagði að þessa fjármuni ætti að nýta til almennrar leiðréttingar.
Vilhjálmur rifjaði upp að haustið 2008 skipaði Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, starfshóp til að skoða hvaða leiðir væru færar til að bregðast við vanda lántakenda vegna verðtryggingar og meta fjárhagsleg áhrif þess að fella tímabundið niður verðtryggingu á lánsfé og sparifé. Starfshópurinn var undir formennsku Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ.
„Það lá fyrir að við hrun krónunnar myndi verðbólga rjúka upp úr öllu valdi með skelfilegum afleiðingum fyrir íslensk heimili. Þessi starfshópur skilaði minnisblaði til núverandi forsætisráðherra. Það er skemmst frá því að segja, að starfshópurinn lagði alls ekki til að frysta vísitöluna í kjölfar efnahagshrunsins til að hlífa íslenskum heimilum.
Í áliti starfshópsins segir m.a.: „gagnvart lánveitendum séu alvarleg formerki á því að afnema verðtryggingu lána. Það kom einnig fram að er verðtrygging á fasteignalánum til heimila yrði felld niður tímabundið t.d. júní 2008 til júní 2009, myndu tekjur lánveitenda verða 180 milljörðum minni.“ [hér er miðað við verðbólguspá Seðlabanka Íslands]
Hvernig má það eiga sér stað að forseti Alþýðusambands Íslands, sem var formaður þessa starfshóps, skuli hafa lagt til að verðtryggingin legðist af fullum þunga á íslensk heimili. Á sama tíma voru fjármagnseigendur varðir að fullu fyrir þeim hamförum sem gengu í kjölfar hækkunar vísitölunnar. Afstaða starfshópsins var tekin á sama tíma og verið var að dæla 200 milljörðum inn í peningamarkaðssjóðina,“ sagði Vilhjálmur.
Vilhjálmur sagði að með þessari afstöðu hefði Gylfi tekið sér stöðu með fjármagnseigendum en ekki með heimilunum í landinu. Þarna hefðu menn misst af tækifæri til að bæta þann forsendubrest sem hefði orðið í hruninu. „Á þeirri forsendu m.a. skora ég á forseta Alþýðusambands Íslands að íhuga sterklega að gefa ekki kost á sér sem forseti ASÍ áfram.“
Gylfi sagðist ekki geta stutt tillögu um að taka lífeyri félagsmanna Alþýðusambandsins til að lækka almenn lán. „Það kostar ekkert minna að gera það árið 2008 en að gera það í dag. Það kostar um 200 milljarða og það kemur að mestu úr lífeyrissjóðum ykkar vegna elli- og örorkulífeyrisþegar sem eru á bótum í dag. Þeir hafa líka orðið fyrir forsendubresti. Fólk sem er í leiguhúsnæði og hefur ekki ráð á því að kaupa sér húsnæði hefur líka orðið fyrir forsendubresti. Þeirra kostnaður af því að lifa hefur tekið stökkbreytingum með falli krónunnar. Og ef við ætlum að fjármagna stökkbreytingu okkar hinna með því að frysta lífeyri þeirra þá munu þau bera skarðan hlut frá borði,“ sagði Gylfi.