Lýsing hefur opnað fyrir fyrsta hluta endurútreiknings bílasamninga til einstaklinga á þjónustuvef fyrirtækisins. Um er að ræða viðskiptavini sem eru með virka, óbreytta samninga.
„Í kjölfarið mun Lýsing ljúka endurútreikningi fyrir viðskiptavini sem eru með virka bílasamninga sem hafa farið í greiðsluraðarbreytingu eða greiðslujöfnun, ásamt þeim sem eru með mynt-/skuldbreytta samninga.
Flóknari samningar, t.d. þar sem
skuldaraskipti (yfirtökur) hafa orðið á samningi, eða samningur er í
riftunarferli, bíða frekari vinnslu og boðaðs frumvarps
viðskiptaráðherra. Þá munu uppgerðir samningar verða endurreiknaðir í
síðari áföngum. Send verða bréf til þeirra viðskiptavina sem eru í
hverjum áfanga fyrir sig með frekari upplýsingum. Í núverandi áfanga eru
8.411 bílasamningar endurreiknaðir,“ segir í tilkynningu frá Lýsingu.