Reynir að hrauna yfir mig

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Kristinn

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, kvartaði yfir því á Alþingi í dag að forsætisnefnd Alþingis hefði ekki fallist á að taka á dagskrá í dag frumvarp, sem hún lagði fram í gær um að hverfa megi frá lagaákvæði um að þrír mánuðir þurfi að líða frá því tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu er samþykkt á Alþingi og þar til atkvæðagreiðslan fer fram.

Vigdís hafði áður lagt fram þingsályktunartillögu um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla, samhliða kosningum til stjórnlagaþings 27. nóvember,  um það hvort hætta eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Yfirsást Vigdísi lagaákveðið um tímafrestinn, sem samþykkt var í sumar. 

„Það hefur komið fram hjá háttvirtum þingmanni að stundum þá er það skammtímaminnið sem bregst henni, en mér virðist nú sem að langtímaminnið sé líka farið að bregðast henni. Ég ætla að rifja það upp fyrir henni að hún lýsti því hér yfir á síðasta þingi að hún hygðist leggja fram þessa tillögu. Ég fagnaði því. Ég taldi að það væri rétt að þingið tæki þetta mál til afgreiðslu. En háttvirtur þingmaður hún gleymdi því líka, alveg eins og hún gleymdi því að hún var í nefndinni sem fjallaði um þjóðaratkvæðslufrumvarpið, fjallaði sjálf um þriggja mánaða ákvæðið,“ sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. 

„Það er eins og við manninn mælt þegar ég tek til máls hér þá upptendrast hæstvirtur utanríkisráðherra og fer hér í ræðustól og gerir a.m.k. tilraun til að hrauna yfir mig, en tekst það nú ekki oft eða nánast aldrei,“ sagði Vigdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert