Tapa 250-270 milljónum á dag

Guðbjartur Hannesson.
Guðbjartur Hannesson. mbl.is/Ómar

„Við verðum að horfast í augu við það að við erum að tapa á hverjum einasta degi 250-270 milljónum,“ sagði Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingaráðherra, á ársfundi ASÍ um stöðu ríkissjóðs. Hann sagði gríðarlega mikilvægt að takast á við mikinn halla á ríkissjóði.

„Fyrir aðeins tveimur árum lækkuðu tekjur ríkissjóðs allverulega og vaxtagreiðslugreiðslur hækkuðu. Ráðstöfunartekjur ríkissjóðs lækkuðu þar með um 40%,“ sagði Guðbjartur. Hann sagði að það yrði að takast á við þennan mikla vanda og því miður væri ekki hægt að komast hjá því að spara í útgjöldum til heilbrigðis- og félagsmála því þau væru svo stór hluti af heildarútgjöldum ríkissjóðs.

Guðbjartur sagði að takast yrði á við atvinnuleysi sem væri enn of mikið. Hann sagði áhyggjuefni að þeir sem ættu ekki rétt á atvinnuleysisbótum ættu ekki aðild að atvinnumarkaðsúrræðum Vinnumálastofnunar. Þetta væri fólk sem þyrfti að treysta á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Guðbjartur sagði brýnt að laga þetta og að því væri unnið.

Guðbjartur gerði að umtalsefni mikið atvinnuleysi á Suðurnesjum. Þar væri atvinnuleysi um 5 prósentustigum yfir landsmeðaltali. Nauðungarsölur væri 10-falt fleiri á Suðurnesjum en í öðrum landshlutum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert