Þörf á Grettistaki í húsnæðismálum

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Ernir

 Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að stjórnvöldum hafi á undanförnum árum tekist að útrýma nánast öllum ásættanlegum lausnum í húsnæðismálum. Öllu félagslegu eignaríbúðarhúsnæði hafi verið eytt. Verkalýðshreyfingin verði að lyfta Grettistaki og að endurreisa þetta kerfi.

Gylfi sagði að miklar breytingar hefðu verið gerðar á félagslega- og almenna húsnæðiskerfinu á síðustu tveimur áratugum. „Þar átti í hlut kerfi sem samtök launafólks áttu frumkvæði að, sem almennt launafólk og lífeyrissjóðir þeirra fjármögnuðu, og ætlað var að tryggja almennu launafólki öruggt og gott íbúðarhúsnæði á viðráðanlegum kjörum. En það er eins með þetta og deilu okkar um aðkomu stéttarfélaganna að þjónustu við atvinnulausa og þjónustu VIRK við þá félaga okkar sem horfið hafa af vinnumarkaði vegna veikinda og slysa og þurfa annað tækifæri til þess að ná aftur fótfestu á vinnumarkaði með markvissri starfsendurhæfingu, þá sögðu stjórnvöld nú getum við – ykkar aðkomu er ekki lengur óskað.

Á þessum tveimur áratugum hefur stjórnvöldum, alveg óháð hinu pólitíska litrófi, tekist að útrýma nánast öllum ásættanlegum lausnum í húsnæðismálum landsmanna. Öllu félagslegu eignaríbúðahúsnæði hefur verið útrýmt og tækifærum almenns launafólks til myndunar á eign í eigin íbúðarhúsnæði eytt og þar með tækifærum launafólks til þess að skapa sér og fjölskyldu sinni traustari fjárhags- og félagslega framtíð. Fyrir þetta hafi stjórnvöld ævarandi skömm fyrir því nú þegar á reynir og fjöldi félaga okkar er í sárri þörf fyrir félagslegt íbúðarhúsnæði er að litlu að hverfa. Húsaleigan er flestum óviðráðanleg og stjórnvöld áforma verulegar skerðingar á húsleigubótum! Það er mín skoðun að verkalýðshreyfingin verði enn einu sinni að lyfta Grettistaki og endurreisa hér íbúðakerfi sem gagnast almennu launafólki!“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert