Tóku atvinnumálin í gíslingu

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði við setningu ársfundar ASÍ að svo virðist sem fámennur hópur hefði tekið málaflokkinn atvinnumál í gíslingu og ríkisstjórnin hefði misst forræði á málinu. Hann gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki staðið við gefin fyrirheit.

Gylfi sagði að margir innan verkalýðshreyfingarinnar hafi upplifað þetta ár sem ár hinnar brostnu vona. Þess vegna væri yfirskrift þessa fundar „Stopp - hingað og ekki lengra.“

Gylfi fór yfir hvernig gengið hefði að efna stöðugleikasáttmálann sem gerður var í júní 2009. Litlu hefði munað að atvinnurekendur hefðu sagt sig frá sáttmálana, „en það gerðu stjórnvöld hins vegar í reynd. Þau gerðu það ekki með formlegum hætti eins og heiðarlegast hefði verið, heldur með endurteknum og alvarlegum vanefndum á þeim þáttum sem þau höfðu gefið fyrirheit um.

Það á við um loforð stjórnvalda um náið samráð í veigamiklum málum sem varða hagsmuni launafólks, en alvarlegast og sárast hefur þó verið ótrúlegt framtaksleysi stjórnvalda í atvinnumálum og nauðsynlegar atvinnu- og tekjuskapandi framkvæmdir. Það er mikið áhyggjuefni að svo virðist sem málaflokkurinn atvinnumál hafi verið tekinn í gíslingu fámenns hóps og ríkisstjórnin í raun misst forræði á málinu,“ sagði Gylfi.

Gylfi sagði að ríkisstjórnin hefði í reynd ekki haft meirihluta á Alþingi til að koma málum sínum í gegn og stjórnarandstaðan hefði nýtt sér það. Við slíkar aðstæður væri ekki ólíklegt að það kæmi til kosninga.

„Það sem stjórnmálamenn og atvinnurekendur verða að gera sér grein fyrir, er að þegar þolinmæði okkar þrýtur er í reynd verið að þvinga fram ákveðið val um hvert skal halda því það sem ekki verður sótt með friði verður sótt með öllum þeim úrræði sem verkalýðshreyfingin býr yfir. Því getur fylgt mikill herkostnaður en ef okkur er ekki önnur leið fær verður hún farin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert