Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram lagafrumvarp á Alþingi um að leggja Bankasýslu ríkisins niður og spara þannig 56 milljónir króna á næsta ári.
Guðlaugur Þór Þórðarsson er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Þingmennirnir segja í greinargerð að Bankasýsla ríkisins hafi verið sett á fót með lögum á síðasta ári og ætlað að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum og leggja þeim til fé fyrir hönd ríkisins á grundvelli heimildar í fjárlögum.
Nú hafi tveir viðskiptabankanna verið seldir, þ.e. Arion banki og Íslandsbanki, sem leiði til þess að Bankasýslan sé í raun heil stofnun utan um bankaráð Landsbankans auk þess sem hún fari með eignarhlut ríkissjóðs í Sparisjóði Norðfjarðar.
„Einhver mundi ætla að stofnun sem á að hafa eftirlit með ríkisbankanum mundi gera athugasemdir við að hann færi ekki eftir eigendastefnu ríkisins en það er öðru nær. Í fréttum kom fram að forstöðumaður Bankasýslunnar hefði sagt að á heildina litið væri sala Landsbankans á eignarhaldsfélaginu Vestiu til lífeyrissjóðanna jákvæð þótt söluferlið hefði ekki verið gagnsætt. Málið horfði öðruvísi við því lífeyrissjóðir keyptu. Fram kom á fundi í viðskiptanefnd að Bankasýslan hefði verið með í ráðum um söluna en farið var fram hjá verklagsreglunum með samþykki stofnunarinnar," segir einnig í greinargerðinni.