Á ekki að vera „hundahreinsun fyrir útrásarvíkinga“

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segist vilja að breyting á gjaldþrotalögum beinist fyrst og fremst að venjulegu íbúðarhúsnæði. Engin ástæða sé til að útrásarvíkingar fái „hundahreinsun svo þeir geti haldið áfram.“

Ríkisstjórnin hefur tilkynnt að hún ætli að leggja fram frumvarp sem stytti þann tíma sem hægt er að viðhalda kröfum hjá fólki sem hefur orðið gjaldþrota.

„Við hefðum viljað takmarka þetta við venjulegt íbúðarhúsnæði. Við sjáum enga sérstaka ástæðu til þess að útrásarvíkingarnir fái einhverja hundahreinsun og geti haldið áfram. Svona aðgerð á fyrst og fremst að sníða að venjulegu fólki,“ sagði Gylfi.

Arion banki telur hættu á að breyting á gjaldþrotalögum geti leitt til þess að fjármálastofnanir geri meiri kröfur til lántakenda sem leiði til þess að þeim verði gert erfiðara að eignast húsnæði. Gylfi sagði að þetta sjónarmið yrði að hafa í huga við breytingar á gjaldþrotalögum, lögum um ábyrgðamenn og lánsveð.

„Ef að við þrengjum of mikið að lántökum þá verður dýrara að taka lán og þá verður lántaka bundin við þá sem eiga eignir,“ sagði Gylfi og benti á að í gegnum árin hefði ungt fólk sem er að hefja búskap fengið  aðstoð frá foreldrum í formi ábyrgða lánsveða.

„Við verðum að gæta okkar að ganga ekki svo langt í öllu þessu að koma ekki í veg fyrir að fólk með lítil efni geti yfirhöfuð fengið lán vegna þess að kröfurnar eru orðnar svo háar.“

Gylfi sagði að hafa þyrfti í huga að miklar afskriftir bankanna nú kæmu á endanum fram í hærri vöxtum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert