„Þetta var áfall. Menn voru bara niðurbrotnir. Fólkið auðvitað bara
grét, var með áhyggjur og leið rosalega illa,“ segir Júlíana Guðmundsdóttir, trúnaðarmaður hjá Orkuveitu Reykjavíkur, sem er í hópi þeirra sem sagt var upp í gær.
Orkuveitan sagði upp 65 starfsmönnum. Þeim voru tilkynntar uppsagnirnar um hádegisbilið í gær en þær taka gildi um mánaðamótin.
„Við vorum fyrsti hópurinn. Okkur var smalað saman og sagt að okkur væri öllum sagt upp störfum. Einn starfsmaður lá að vísu á sjúkrahúsi, en honum var líka sagt upp. Öðrum, sem er 62 ára gamall og búinn að vinna hjá OR í 37 ár, var þá sagt upp,“ segir Júlíana, sem starfaði á almannatengsla- og umsýslusviði, en nánar er fjallað um uppsagnirnar í Morgunblaðinu í dag.