Framsóknarmenn mótmæla orðum Gylfa

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Kristinn

Stjórn Framsóknarflokksins segir það alranga fullyrðingu í ræðu Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, í gær, að stjórnarandstaðan á Alþingi hefði nýtt sér veikleika í samstarfi stjórnarflokkanna og kerfisbundið komið í veg fyrir að ríkisstjórnin kæmi málum sínum í gegn.

„Þetta er alrangt. Á þessu ári hafa langflest mál ríkisstjórnarinnar farið í gegn um þingið mótatkvæðalaust. Í aðeins sex skipti hafa frumvörp fengið mótatkvæði. Í þremur þeirra voru nei aðkvæðin aðeins tvö. Mestur fjöldi nei-atkvæða var 12.
Stjórnarandstaðan hefur því ekki stöðvað eitt einasta mál ríkisstjórnarinnar," segir í yfirlýsingu frá flokknum.

Þar segir, að vandinn liggi hins vegar í því að ríkisstjórnin hafi ekki komið fram með þau mál sem á þarf að halda. Þegar stjórnarandstaðan reyni að bæta þar úr með eigin tillögum séu þær virtar að vettugi.

„Ef svo er reynt að fá ríkisstjórnina til að hlusta, og ítrekað bent á sömu vandamál og forseti Alþýðusambandsins skammaði ríkisstjórnina fyrir í ræðu sinni, skilgreinir hann það sem fyrirstöðu eða skotgrafahernað," segir í tilkynningu Framsóknarflokksins.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert