Jón Gnarr fékk ígerð í húðflúrið

Jón Gnarr sýnir húðflúrið. Myndin er tekin af Dagbók borgarstjóra.
Jón Gnarr sýnir húðflúrið. Myndin er tekin af Dagbók borgarstjóra.

Stokkhólmferð Jóns Gnarr borgarstjóra Reykjavíkur endaði öðru vísi en áætlað var þar sem Jón þurfti að leita læknisaðstoðar vegna sýkingar sem kom upp í húðflúrinu sem hann fékk sér nýlega á handlegginn, með skjaldamerki Reykjavíkurborgar. Jón fékk pensillín í æð en er nær lífi en dauða, að sögn aðstoðarmanns hans, og er á heimleið.

Í gærmorgun greindi Jón frá því í á Facebook síðu sinni, Dagbók borgarstjóra, að hann sæti á umhverfisráðstefnu í Stokkhólmi með kláða í tattúinu. Orsök kláðans reyndist vera sýking.  „Ég var að tala við hann áður en hann fór í flugið og hann sagðist vera með Reykjavík undir hendinni, stokkbólginn í Stokkhólmi í alla nótt og ætlaði aldrei að fara til Stokkhólms aftur," segir S. Björn Blöndal aðstoðarmaður borgarstjóra. Jón kláraði dagskrá ráðstefnunnar eins og til stóð, en leitaði að henni lokinni á slysavarðstofu í gærkvöld og dvaldi þar í nótt.

Björn segir þó ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af borgarstjóranum. „Eins og hann hefur sjálfur sagt þá þekkir hann ekki ótta og finnur hvorki fyrir sársauka né kulda. Mér heyrðist hann vera nær lífi en dauða, en hann fer í einhverja skoðun þegar hann kemur heim."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert