Tyrkneskir fjölmiðlar hafa fjallað talsvert um hálfs árs gamlan íslenskan dreng, sem komst lífs af úr bílslysi við borgina Mugla á miðvikudag en foreldrar drengsins létu báðir lífið. Ættingjar drengsins komu til Tyrklands í gærkvöldi til að sækja drenginn og flytja hann til Íslands.
Drengurinn, sem heitir Daníel Ernir, var fluttur á sjúkrahús í Mugla eftir slysið. Blaðið Hürryiet hefur eftir yfirlækni á sjúkrahúsinu að drengurinn sé við góða heilsu og hafi verið mikill gleðigjafi á sjúkrahúsinu meðan hann dvaldi þar.
Foreldrar drengsins hétu Jóhann Árnason og Dagbjört Þóra Tryggvadóttir. Jóhann var 25 ára
gamall en Dagbjört Þóra 34 ára. Þau voru búsett í Árósum í Danmörku en voru á
ferðalagi um Tyrkland þegar slysið varð.