Samið við Ístak um Búðarhálsvirkjun

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, kynnti Búðarhálsvirkjun nýverið.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, kynnti Búðarhálsvirkjun nýverið. mbl.is/Rax

Landsvirkjun og verktakafyrirtækið Ístak undirrituðu í dag samning um byggingu  Búðarhálsvirkjunar.  Heildarfjárhæð samningsins nemur rúmum 9,8 milljörðum króna að meðtöldum virðisaukaskatti eða 77,56% af kostnaðaráætlun.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í vetur og er áætlað að virkjunin verði komin í rekstur fyrir árslok 2013. Áætlað er að heildarfjöldi ársverka sem skapist á Íslandi vegna byggingar Búðarhálsvirkjunar verði á milli 600 til 700 yfir allan framkvæmdatímann. Þegar flest verður á vinnustað verða þar um 300 manns.
 

Verkið skiptist í þrjá verkhluta. Einn er gerð Sporðöldustíflu sem er jarðvegsstífla í tveimur hlutum, 1100 metra og 170 metra löngum og verður stíflan hæst um 25 metrar.

Annar verkhluti felst í að sprengja og styrkja aðrennslisgöng virkjunarinnar.  Göngin eru skeifulaga, tæpir 15 metrar á hæð og rúmir 11 metrar á breidd og lengd þeirra er um 4 km.  

Þriðji verkhlutinn er bygging á stöðvarhúsi og inntaksmannvirkjum ásamt greftri frárennslisskurðar.  

Verkið var boðið út á evrópska efnahagssvæðinu og voru tilboð opnuð í ágúst. Sjö aðilar buðu í verkið og var Ístak með lægsta boð í allt verkið að teknu tilliti til afslátta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert