Signý Jóhannesdóttir var kjörin varaforseti ASÍ á þingi sambandsins. Signý fékk 159 atkvæði eða 63,6% atkvæða. Guðrún J. Ólafsdóttir fékk 91 atkvæði eða 36,4%.
„Það er alls ekki auðvelt á tímum sem þessum að gefa kost á sér til að sitja í forystu Alþýðusambandsins, sambands sem á langa sögu fyrir baráttu fyrir kjörum verkafólks en oftar en ekki hlotið bágt fyrir,“ sagði Signý.
Signý hefur starfað lengi innan ASÍ. Hún starfaði lengi hjá Verkalýðsfélaginu Vöku á Siglufirði, en síðustu ár hefur hún verið formaður Stéttarfélags Vesturlands sem er aðili að Starfsgreinasambandsins.
Þetta er í þriðja skiptið sem Signý býður sig fram til embættis varaforseta ASÍ.
Guðrún sagði á fundinum að hún væri ekki hætt og ætlaði áfram að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á vettvangi ASÍ.