Hópur mótmælenda hefur komið sér fyrir utan Hótel Hilton þar sem fram fer ársfundur Alþýðusambands Íslands.
„Má ég biðja um hljóð í salnum,“ sagði Sigurður Bessason, formaður Eflingar, þegar hann hóf ræðu sína um kjaramál, en nokkurt skvaldur var í þingsalnum þegar hann hóf ræðu sína. Hann bætti svo við að hann gerði sér grein fyrir að ekki væri hægt að fá algjört hljóð í salnum. Þingfulltrúar heyra vel í tunnunum sem barðar eru við fundarstaðinn.
Umræður um kjaramál eru að hefjast á ársfundinum og setja mótmælin ákveðin svip á fundinn. Sumir ræðumenn hafa vísað til mótmælanna í ræðum sínum.