Félagsdómur hefur dæmt að Garðvangi hafi ekki verið heimilt að taka aksturspeninga af átta sjúkraliðum sem starfa á Garðvangi en eru búsettir utan Garðs. Dómurinn taldi að Garðvangi beri að greiða sjúkraliðunum kostnað við ferðir til og frá vinnustað í samræmi við ákvæði í kjarasamningi.
Fram til ársins 2009 greiddi Garðvangur sjúkraliðum, sem búsettir eru utan Garðs og starfa á Garðvangi, ferðakostnað. Sama gilti um sjúkraliða sem búsettir eru utan Reykjanesbæjar og starfa hjá Hlévangi. Byggðust þær greiðslur á ákvæði í kjarasamningi Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og Sjúkraliðafélags Íslands, en ákvæðið er svohljóðandi samkvæmt síðast gildandi kjarasamningi aðila:
„Vinni starfsmaður fjarri leiðum almenningsvagna skal vinnuveitandi sjá honum fyrir ferðum til og frá vinnustað eða greiða honum ferðakostnað. Slíkar ferðir teljast til vinnutíma, að því er nemur flutningstíma frá mörkum næsta aðalíbúðarsvæðis til vinnustaðar.“
Í janúar 2009 tilkynnti framkvæmdastjóri Garðvangs sjúkraliðunum að vegna tekjulækkunar væri nauðsynlegt að draga úr kostnaði og að tekin hefði verið ákvörðun um að lækka greiðslur vegna aksturs. Frá og með 15. febrúar 2009 skyldi greiða kílómetra vegna hverrar vaktar samkvæmt ákveðnum reglum.
Félagsdómur taldi þessa ákvörðun ekki samræmast kjarasamningi sjúkraliða. Garðvangi var gert að greiða Sjúkraliðafélaginu 300 þúsund í málskostnað.