Daníel Ernir Jóhannsson, rúmlega sex mánaða gamall sonur hjónanna sem létust í bílslysi í Tyrklandi, er kominn heim til Íslands. Gunnar Tryggvason, móðurbróðir Daníels, og eiginkona hans lentu á Keflavíkurflugvelli með Daníel litla nú fyrir skömmu.
„Við erum komin heim. Við komum bara rétt áðan. Það var ákveðið í nótt að koma heim. Okkur bauðst þriggja leggja ferð, sem við ætluðum ekki í, en þáðum hana að lokum. Annars hefðum við ekki komist heim fyrr en annað kvöld,“ segir Gunnar í samtali við Morgunblaðið.
„Við erum núna að keyra heim, örþreytt.“
Gunnar kveðst hafa verið mjög svo feginn að fá Daníel Erni í fangið eftir erfiða daga en þau hjónin lögðu af stað til Tyrklands morguninn eftir slysið.
Aðrir aðstandendur eru þó enn í Tyrklandi. „Við skiptum með okkur verkum. Ég og konan mín tókum að okkur að koma barninu heim. Árni, faðir Jóhanns, og Stefán, samstarfsmaður hans, sinntu öðrum erfiðari málum. Þeir eru ennþá á staðnum að ganga frá pappírum og þess háttar,“ segir Gunnar.
Ekki hefur verið ákveðið hverjir taka að sér drenginn til frambúðar, en að sögn aðstandenda á hann marga góða að. „Það er ekki búið að taka ákvörðun um það en hann verður hjá okkur fyrst um sinn,“ segir Gunnar að lokum.