Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboð, sagði í fréttum Útvarpsins, að hann teldi að flokksforustan hafi skýrt umboð til að takast áfram á við umsóknarferlið að Evrópusambandinu.
Flokkurinn hélt málefnaþing um helgina þar sem fjallað var um utanríkismál, þar á meðal umsóknarferlið að ESB. 100 félagar í VG skrifuðu undir áskorun til flokksforustunnar um að beita sér gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu og aðlögunarferli sem hafi slíka aðild að markmiði.
Steingrímur sagði í fréttum Útvarpsins, að vissulega hefðu komið fram raddir í þessa veru á málefnaþinginu og ljóst sé að stefna flokksins sé að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins. En einnig hefði verið bent á, að það sé ekki svo einfalt að stöðva viðræðuferlið. Fyrir því þurfi að vera málefnaleg rök og þau fáist ekki með því að slíta viðræðunum fyrirvaralaust.