Fjölmenni er á Skólavörðustíg í Reykjavík þessa stundina en þar er árlegur kjötsúpudagur í tilefni af fyrsta vetrardegi þar sem gestum og gangandi er boðið upp á heita kjötsúpu. Veðrið fyrir slíkan dag gæti ekki verið ákjósanlegra, kalt og stillt en jafnframt skín sólin í heiði.
Jóhann
Jónsson, eigandi Ostabúðarinnar við Skólavörðustíg, er upphafsmaður þessa dags sem var fyrst haldinn fyrir átta árum. Síðan þá hefur
Kjötsúpudagurinn eflst og dafnað og í ár elda fjórir kokkar 800 lítra,
en það munu vera um 4000 skammtar. Eru þeir allir með sína útgáfu af kjötsúpu.
Dagskráin hófst með því að Úlfar Eysteinsson, veitingamaður á Þremur frökkum, fór með kjötsúpu í Hegningarhúsið handa föngum þar. Síðan komu kokkarnir sér fyrir við Skólavörðustíginn og víða heyrðist harmónikkuleikur og söngur.
Lambakjötsframleiðendur gefa kjötið í súpuna og grænmetisbændur leggja til allt grænmeti.