Telja stjórn Gildis eiga að segja af sér

Smábátur heldur á veiðar við Arnarstapa.
Smábátur heldur á veiðar við Arnarstapa. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Stjórn Landssambands smábátaeigenda (LS) er einhuga um, að stjórnarmenn lífeyrissjóðsins Gildis, sem voru í stjórn árin 2007 og 2008 og sitja þar enn, eigi að segja af sér. Smábátasjómenn eru að skoða möguleika á að stofna eigin lífeyrissjóð.

Fram kemur á heimasíðu LS, að talsverð umræða hafi orðið um málefni Gildis á ársfundi sambandsins.  Er þar haft eftir Erni Pálssyni, framkvæmdastjóra LS, að við skoðun á ársreikningum Gildis fyrir árin 2008 og 2009 gæti svo farið að eignir sjóðsins rýrni um alls 70 milljarða ef ekkert innheimtist sem gerð væri krafa til. Það jafngildir iðgjöldum sjóðfélaga í tvo áratugi.

Örn sagði á aðalfundinum, að hann hefði á árfsfundi Gildis nýlega óskað skýringa á því að Gildir veitti Glitni víkjandi lán að fjárhæð 3,69 milljarða króna árið 2008. Svar sjóðsins var eftirfarandi:

„Í mars 2008 keypti Gildi breytanlegt/víkjandi skuldabréf af Glitni banka fyrir 3 milljarða króna.  Stjórn sjóðsins, framkvæmdastjóri og forstöðumaður eignastýringar tóku ákvörðun um kaupin á grundvelli þeirra upplýsinga sem þá lágu fyrir um stöðu bankans.  Sjóðurinn telur nú í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið eftir fall bankans að stjórnendur hans hafi gefið rangar upplýsingar um stöðuna.  Sjóðurinn rekur nú dómsmál til að fá skuldabréf þetta metið sem almenna kröfu í þrotabú bankans.  Einnig verður skoðað hvort höfðað verður skaðabótamál á hendur stjórnendum bankans.“

„Hér eru menn með allt niðrum sig, alvarleg mistök hafa verið gerð, kallað er eftir ábyrgð stjórnarinnar,“ er haft eftir Erni.

Heimasíða Landssambands smábátaeigenda

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert