Engin ein fagstétt á sorgina

Í predikun sinni í hátíðarmessu í Hallgrímskirkju í dag sagði Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, að í nafni mannréttinda ætti ekki lengur að kalla til presta og djákna þegar áföll verða. Í staðinn ætti að kalla til svokallaða fagaðila. 

„Með þessu er gert lítið úr menntun og reynslu kirkjunnar þjóna hvað varðar sálgæslu og samfylgd við syrgjendur sem flestir Íslendingar kjósa reyndar að þiggja. Þetta er illa dulbúin atlaga að faglegum heiðri presta og djákna og útilokun þeirra frá því að sinna starfi sínu. Allt ber þetta að sama brunni," sagði Karl í predikun sinni.“

Margar fagstéttir vinna að því að styðja við fólk sem hefur lent í ýmiskonar áföllum. Félagsráðgjafar eru ein þeirra, en á vefsíðu félagsins segir að markmið  félagsráðgjafar sé að vinna að lausn félagslegra og persónulegra vandamála og sporna við félagslegu ranglæti. 

Sveindís Anna Jóhannsdóttir, varaformaður Félagsráðgjafafélags Íslands, segir að félagið hafi ekki tekið sérstaka afstöðu til þessa. „Auðvitað eru prestar sérfræðingar. En það erum við líka. Til dæmis hafa margir félagsráðgjafar menntað sig sérstaklega til að vinna í skólum.“

Sveindís Anna segir að nokkrar starfsstéttir með mismunandi menntun vinni með fólki sem hefur orðið fyrir áföllum og misjafnt sé eftir eðli þess hver sé best til þess fallinn að koma að málinu.  „Áföll eru afar mismunandi. En einstakar fagstéttir geta ekki eignað sér tiltekna málaflokka. Félagsráðgjafar eiga til dæmis ekki fátækt, þó þeir vinni mikið með fólki sem býr við erfiðar aðstæður. Og engin ein fagstétt á sorgina,“ segir Sveindís Anna. „Það á ekki að kalla til prest ef barn er annarar trúar en kristið. Svo eru ekki öll börn tengd sínum trúfélögum eða prestinum sínum.“

Hún segir að rannsóknir sýni að þegar unnið sé þverfaglega að því að leysa persónuleg og félagsleg vandamál, þá sé verið að auka gæði þjónustunnar.  „En auðvitað eru prestar að reyna að verja sín störf eins og aðrar starfsstéttir. Það er ekkert óeðlilegt við það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert