Gat ekki samið við LÍN

Barnaverndarstofa, Talsmaður neytenda
Barnaverndarstofa, Talsmaður neytenda mbl.is/Golli

Menntamálanefnd Alþingis og Lánasjóður íslenskra námsmanna munu funda á næstunni og ræða innheimtuaðgerðir gagnvart skuldurum.

Einstæð móðir sendi öllum þingmönnum tölvpóst, þar sem fram kemur að bankar og fjármálastofnanir hafi komið til móts við hana, en tvær ríkisstofnanir hafi tekið hjá sér fjárnám; LÍN og skatturinn.

Í bréfinu frá konunni segir: „Undanfarin tvö ár hef ég eitt góðum tíma í að semja við banka og lánadrottna. Ykkur finnst það kannski hljóma merkilega, en ég hef ekki átt í miklum vanda við að semja við bankana fram til þessa. Þeir hafa gert sitt besta fyrir mig, enda stóð ég ávalt í skilum með allt mitt fyrir hrun. Hins vegar varð það erfiðara eftir að nafn mitt var sett á skrá Umboðsmanns skuldara.“

Konan segist hafa haft samband við Menntamálaráðherra og beðið um að ekki væri krafist greiðslu námslána, þar sem hún var í námi og á námslánum. „Á endanum varð ég að hætta í námi þar sem ekki fengust námslán vegna skuldarinnar. Hún var síðan gjaldfelld í heild sinni.“

„Ef alþingismönnum er í raun alvara með því að koma til móts við skuldsettar fjölskyldur í stórum vanda þá má kannski byrja á að líta til eigin krafna ríkisstofnanna sem eru að nauðbeygja fólk og krefjast nauðungarsölu. Innheimtuaðgerðir ríkisins sjálfs er þær sem engan grið gefa.“

Eftir að bréfið var sent óskaði Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar eftir fundi í menntamálanefnd. Hefur Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tekið undir þá ósk. Skúli Helgason, formaður nefndarinnar, segir að fundur verði haldinn um málið þegar kjördæmaviku þingsins lýkur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert