Áætlað er að rúmlega sex þúsund ferðamenn hafi komið til Hornstrandafriðlandsins í sumar. Þetta kemur fram á vef Bæjarins besta.
Þar segir Jón Björnsson, landvörður og forstöðumaður Hornstrandastofu að nauðsynlegt sé að horfa til framtíðar og marka stefnu fyrir svæðið.
Jón segir að töluverð fjölgun ferðamanna hafi verið undanfarin tvö sumur og skoða þurfi hversu marga svæðið getur borið. Fyrir um tíu árum var ferðamannafjöldi til svæðisins 3500 - 4000.
Fundað hefur verið um aukið samstarf við Ísafjarðarbæ í tengslum við friðlandið og er mikils vænst af því.
„Ég vænti mikils af samstarfinu við Ísafjarðarbæ. Það hefur víða sýnt sig erlendis að þar sem þjóðgarðar og friðlönd eru rekin í samráði við heimafólk og hagsmunaðila ganga hlutirnir mikið betur," segir Jón.