Vegið að rótum trúarinnar

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands.
Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands. mbl.is/Kristinn

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, segir tillögu mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar vega að rótum trúar, siðar og hefðar. Hann gerði samþykktina að umræðuefni sínu í predikun hátíðarmessunnar í Hallgrímskirkju í dag.

Tillaga mannréttindaráðs kveður á um að starfsmenn kirkjunnar fái ekki lengur að heimsækja skóla, kirkjuferðir verði bannaðar ásamt sálmasöng og listsköpun í trúarlegum tilgangi.

„Kerfisbundið virðist vera unnið að því að fela þá staðreynd og víða ráða för skefjalausir fordómar og andúð á trú, sér í lagi kristni og þjóðkirkju. Trúfrelsi er skilgreint sem útilokun trúar frá hinu opinbera rými, uppeldi og kennslu. Sem mun þó einungis stuðla að fáfræði, fordómum og andlegri örbirgð,“ sagði Karl.

„Þetta má sannarlega sjá í nýlegri samþykkt mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar sem krefst þess að lokað verði á aðkomu kirkjunnar að skólunum, kirkjuferðir verði bannaðar. Sálmasöngur og listsköpun í trúarlegum tilgangi sömuleiðis. Ættarmótið leynir sér ekki.“

Karl vakti einnig athygli á því að samkvæmt bókun mannréttindaráðsins verði Gídeonfélaginu bannað að afhenda skólabörnum Nýja testamentið að gjöf en Gídeonfélagið hefur gefið skólabörnum ritið í tæp sextíu ár.

„Mannréttindaráð vill í nafni mannréttinda banna það að Gídeonfélagið megi afhenda grunnskólabörnum Nýja testamentið að gjöf. Á vettvangi skólans skal börnunum meinað að kynnast því riti sem er lykillinn að skilningi á listum og bókmenntum heimsins, kristinni trú og sið Íslendinga. Sem grunnskólinn á reyndar að lögum að byggja á og fræða um. Nú þykir brýnt að halda þeirri bók fjarri skólabörnum og leggja það rit að jöfnu við auglýsingabæklinga. “

„Eins skal í nafni mannréttinda ekki lengur kalla til presta og djákna þegar áföll verða heldur svonefnda „fagaðila.“ Með þessu er gert lítið úr menntun og reynslu kirkjunnar þjóna hvað varðar sálgæslu og samfylgd við syrgjendur sem flestir Íslendingar kjósa reyndar að þiggja. Þetta er illa dulbúin atlaga að faglegum heiðri presta og djákna og útilokun þeirra frá því að sinna starfi sínu. Allt ber þetta að sama brunni,“ sagði Karl en hann telur að með þessu sé vegið að rótum trúar, siðar og hefðar.

„Það hefur verið gott að sjá að fjölmargir foreldrar og skólmenn hafa andmælt þessum hugmyndum. Guði sé lof fyrir það fólk sem heldur vöku sinni. Það er vegið að rótum trúar, siðar og hefðar. Við þurfum síst á því að halda á háskatímum,“ sagði Karl sem kvað kirkjuna hafa átt farsælt samstarf við skóla.

„Þjóðkirkjan virðir skólann og forsendur hans og hefur átt gott samstarf við skólann um kristna fræðslu, sálgæslu, forvarnir og lífsleikni. Samstarf kirkju og skóla er mikilvægt í grenndarsamfélaginu því báðar þessar stofnanir vilja hag barna og unglinga sem bestan og vilja leggja grunn að hinu góða samfélagi, hinu góða lífi. Á grundvelli hollra gilda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert