Vegagerðin varar við hálkublettum á Suðausturlandi, frá Vík í Kirkjubæjarklaustur. Á Vestfjörðum, Norðurlandi og á Austurlandi er jafnframt víða hálka, hálkublettir eða snjóþekja. Hellisheiði eystri er orðin ófær.
Ýmsar framkvæmdir við samgöngumannvirki hafa áhrif á umferð, en tilkynning Vegagerðarinnar fer hér á eftir.
„Vegna vinnu við breikkun Vesturlandsvegar hefur Álafossvegi verið lokað tímabundið. Stefnt er að því að vegurinn verði
opnaður í síðasta lagi mánudaginn 25. október. Meðan lokunin varir er allri umferð til og frá Ásum, Löndum,
Helgafellshverfi og Álafosskvos beint um Ásland.
Vegna vegaframkvæmda á þjóðvegi 1 á milli Sveinsstaða og Litlu Giljár í Austur Húnavatnssýslu þurfa vegfarendur að sýna
aðgát þar sem vegurinn þrengist á þessum kafla.
Verið er að breikka Suðurlandsveg á Sandskeiði. Við námuveg að Bolaöldu neðan Litlu kaffistofunnar þurfa stórar
námubifreiðar að þvera veginn og því hefur umferðarhraði þar verið lækkaður í 70 km/klst. Þetta ástand varir næstu
mánuði og er brýnt fyrir vegfarendum að sýna fyllstu aðgát og fara eftir merkingum.“
Unnið er að tvöföldun Hringvegar (1) í Mosfellsbæ, frá Hafravatnsvegi að Þingvallavegi.