Krefst gagna sem eru sögð ekki til

Frá Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Frá Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ragnar Aðalsteinsson, verjandi fjögurra sakborninga af þeim 9 sem eru ákærðir fyrir árás á Alþingi, ítrekaði í dag kröfu um að fá í hendur öll rannsóknargögn málsins, einnig gögn sem borist hafi frá lögreglu. Lára V. Júlíusdóttir, settur ríkissaksóknari í málinu, sagði að öll gögn, sem hún hefði undir höndum og tengdust málinu, hafi verið afhent.

Ragnar lét bóka í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, að hann hefði lagt þessa kröfu fram 9. apríl í vor en þeirri kröfu var synjað. Krafan hafi verið ítrekuð 29. júní og henni aftur synjað. 

Nú komi það svar eftir hálft ár að engin frekari gögn séu fyrir hendi. Hafi það verið leikur einn hjá ákæruvaldinu að synja um gögnin, ef þau væru ekki til, væri það væri slík móðgun við hina ákærðu, dóminn og verjendur að hann neitaði að trúa því. Það benti til þess að einhver gögn væru til sem ekki hefðu verið afhent. Sagðist hann ekki sjá annað en að dómurinn verði að beita  settan ríkissaksóknara viðurlögum, áminningu eða öðru því sem rétturinn hefði tiltækt.

Lára V. Júlíusdóttir, sagðist ekki hafa ætlað að móðga dóminn eða hina ákærðu. Hún sagist ekki átta sig á því hvað lögmaðurinn ætti við. Hún hefði farið í gegnum þau gögn, sem hún hefði yfir að ráða og eina skýringin á kröfu lögmannsins væri að hann hefði undir höndum gögn sem hún hefði ekki.

Í málflutningi um kröfuna sagði Ragnar, að enginn vafi léki á því, að hann og skjólstæðingar hans eigi rétt á öllum rannsóknargögnum málsins. Því verði dómurinn að komst að niðurstöðu um aðgang að þessum gögnum til að tryggja rétt sakborninga til að skoða rannsóknargögnin og að ákæruvaldið geti ekki valið úr gögn til að leggja fram. Dómurinn gæti úrskurðað, að verjendum og skjólstæðingum verði gefinn kostur á að skoða rannsóknargögn í fórum ákæruvaldsins eins og þau voru send frá lögreglu.

Ragnar sagðist, þegar Pétur Guðgeirsson, dómari spurði eftir því, m.a. hafa ástæðu til að ætla, að til væru fleiri upptökur úr Alþingishúsinu og fleiri skýrslur, sem teknar voru af mönnum, sem voru við Alþingishúsið umræddan dag haustið 2008 þegar þeir atburðir gerðust sem ákæran snýst um.

Lára vísaði í bréf, sem ákæruvaldið sendi héraðsdómi í september, þar sem segir að eftir að hafa farið yfir gögn málsins hafi eitt óundirritað og ódagsett skjal fylgt bréfi lögreglustjóra en orðið viðskila við það. Með því að leggja það skjal fram hafi settur ríkissaksóknari mætt kröfu verjanda um frekari framlagningu skjala og sér vitandi væru þau skjöl, sem verjandi ýjaði að, ekki til.

Pétur Guðgeirsson, héraðsdómari, sagðist myndu kveða upp úrskurð innan tíðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert