Gefnar hafa verið út reglur um úthlutun úthlutun aukaframlags Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árinu 2010. Framlag ársins er einn milljarður króna og er því ætlað að að bæta rekstrarstöðu sveitarfélaga á yfirstandandi ári.
Hæsta aukaframlagið fær Hafnarfjarðarkaupstaður eða 90 milljónir kr. Næst á eftir kemur Ísafjarðabær með 89 milljónir.
Þrír fjórðu hlutar framlagsins koma til greiðslu í þessari viku. Eftirstöðvar framlagsins verða greiddar í desember þegar upplýsingar um tekjuforsendur ársins 2010 liggja fyrir og endurskoðun framlagsins hefur farið fram, segir á vef samgönguráðuneytisins.
Í síðustu viku var greint frá því að Reykjanesbær fái hæsta tekjujöfnunarframlagið úr
Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, samkvæmt tillögu ráðgjafarnefndar sjóðsins, eða rúmar 211 milljónir króna úr sjóðnum, Rangárþing eystra
fær 82 milljónir og Eyjafjarðarsveit 74 milljónir. Alls er úthlutað 1228
milljónum króna á þessu ári.
Sérstakt aukaframlag Jöfnunarsjóðs hefur verið veitt síðan 1999 að undanskildum árunum 2002 og 2005.
Við ákvörðun um úthlutun framlagsins var m.a. horft til ársreikninga sveitarfélaganna árið 2009.
Verja skal 600 milljónum vegna íbúaþróunar og heildartekna.
Þar af skulu 400 milljónir renna til sveitarfélaga sem hafa ekki fylgt þróun Reykjavíkurborgar hvað varðar íbúafjölda árin 2004 -2009. Og 200 milljónir fara til sveitarfélaga þar sem hlutfallsleg þróun heildartekna milli áranna 2005 og 2010 er lægri en meðaltal heildartekna allra sveitarfélaga á landsvísu fyrir sama tímabil.
Þá skal verja 200 milljónum til sveitarfélaga þar sem meðaltekjur hafa verið minni en hjá Reykjavíkurborg árin 2004 -2009.
150 milljónir til sveitarfélaga vegna íþyngjandi skulda.
Loks 50 milljóna framlag til fjölkjarna sveitarfélaga, þ.e. sveitarfélaga sem þurfa að halda úti þjónustu á fleiri en einum þéttbýlisstað innan sveitarfélagsins.