Reyna á að ná þyrlunni, sem brotlenti í Esjunni í gærkvöld, niður af fjallinu í dag. Upphaflega stóð til að reyna það í nótt, en veður þótti ekki skaplegt og því ákveðið að bíða með tilraunina þar til betur viðrar.
Landhelgisgæslan flutti fulltrúa frá rannsóknarnefnd flugslysa upp að flakinu í gær, þar sem teknar voru myndir og aðstæður metnar.
Tveir menn voru um borð í þyrlunni, sem er nokkuð skemmd eftir óhappið, en þeim tókst að koma sér niður af eigin rammleik. Mennirnir reyndust ómeiddir.