Þakklæti til þeirra kvenna sem hafa lagt hönd á plóginn í baráttunni gegn misrétti og kúgun kvenna var Dr. Guðrúnu Jónsdóttur ofarlega í huga í ávarpi hennar á Kvennafrídaginn í dag. Guðrún, sem er stofnandi Stígamóta, sagði að baráttumál dagsins væru sýnilegustu merkin um kynjamisréttið.
„Á ári fyrsta kvennaverkfallsins 1975 var hugtakið kynferðisofbeldi nánast óþekkt í orðræðunni. Væri fjallað um eitthvert form þess hvort heldur var í ræðu eða riti, lærðra sem leikra,var gengið út frá því að það væru konur og börn sem kölluðu það yfir sig og bæru á því ábyrgð. Karlarnir sem frömdu það væru nánast leiksoppar útsmoginna kvensnifta,“ sagði Guðrún í ávarpi sínu.
„Væri konum nauðgað væri það þeim sjálfum að kenna. Við hverju gætu þær líka búist með því fara einar út, það er án verndar karlmanns, maður talar nú ekki um ef þær væru undir áhrifum áfengis,“ sagði Guðrún.
Hún sagði að litið hefði verið á vændi sem atvinnugrein, sem konur veldu sér og nytu að starfa við. „Slík afstaða og viðhorf heyrast vart lengur. Opinber ummæli valdamikilla karla sem starfa í réttarkerfinu og birst hafa nýlega bera þess þó vott að viðhorfin lifa enn og eiga sér þar formælendur. Kannske skýrir það að einhverju leyti ömurleg afdrif margra kynferðisofbeldismála innan réttarkerfisins“
Guðrún sagði þó að ljóst væri að barátta kvenna gegn hvers kyns kynferðisofbeldi síðustu 20 - 30 árin hefði lyft grettistaki. Hún sagði að launamisrétti kynjanna væri óásættanlegt og afnám þess hefur jafnan verið efst á blaði í kvennabaráttunni.
„Lengi vel var launamisréttið réttlætt með því að við værum ekki eins áreiðanlegur vinnukraftur og karlarnir vegna barneigna og fjarvista vegna veikinda barna. Síðar var skýringin á launamisréttinu að karlarnir væru svo miklu betur menntaðir en við afar vinsæl. Ástandið væri sem sagt okkur að kenna. I dag eru fleiri konur en karlar í háskólanámi, en ekkert dugir.
Í dag vinnum við tvo tíma og 35 mínundur launalaust á degi hverjum miðað við launamun kynjanna. Er það ásættanlegt?“ spurði Guðrún.
Hún sagði að krepputími væri ekki auðveldasti tími kvennabaráttu. „Aldrei er þó meiri nauðsyn en nú að við stöndum bæði vörð um það sem áunnist hefur og sækjum fram. Óleystu verkefnin eru ærin,“ sagði Guðrún og áminnti viðstadda um að skula kynjagleraugun aldrei við sig.
Athugasemd frá mbl.is: Röng mynd birtist með fréttinni í byrjun og er beðist velvirðingar á því.