Fréttaskýring: Uppsagnir og hækkanir óumflýjanlegar?

Gleði í Langholtsskóla.
Gleði í Langholtsskóla. mbl.is/RAX

Þau eiga fáa kosti og enga góða. Sveitarfélögin standa frammi fyrir erfiðum ákvörðun á næstu vikum við frágang fjárhagsáætlana og í lok nóvember verða allir kjarasamningar lausir.

Sveitarfélögin verða af allt að átta milljarða tekjum á næsta ári verði ákvæði fjárlagafrumvarps samþykkt óbreytt og gætu þurft að grípa til þess ráðs að skera niður grunnþjónustu við íbúana.

Engin niðurstaða liggur enn fyrir í viðræðum við ríkið en tekjustofnanefnd er að leggja lokahönd á tillögur sína og skilar væntanlega niðurstöðum sínum á allra næstu dögum. Forsvarsmenn sveitarfélaga hafa lagt áherslu á samstarf við ríkið um leiðir til að ná niður rekstrarkostnaði. Engar útsvars- og aðrar skattahækkanir verði á næsta ári nema samsvarandi lækkun tekjuskatta eigi sér stað hjá ríkinu.

Vantar verkfæri

Halldór Halldórsson, formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, segir fulltrúa sveitarfélaganna ekki vilja stuðla að auknum álögum á íbúa. „Við teljum að það sé búið að skattleggja nóg,“ segir hann og minnir á að sveitarfélögin vilja fara dönsku leiðina svokölluðu um samstarf við ríkið um að ná niður rekstrarkostnaði. En sveitarfélögin vantar verkfæri til að geta dregið úr kostnaði í stórum málaflokkum á borð við grunnskólann.

„Átta milljarðar spretta ekki á trjánum. Þetta er bara kalt mat á því sem blasir við,“ segir Halldór og kveðst enn vilja trúa því að ríkisvaldið vinni með sveitarfélögunum að því að ná niður rekstrarkostnaði.

Frá hruninu 2008 hefur sveitarfélögum yfirleitt tekist að hagræða og spara án þess að segja upp fólki. Staða þeirra er þó mjög mismunandi bæði hvað varðar möguleika á tekjuöflun og útgjaldaþörf. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er bent á að í fyrra var t.d. tvöfaldur munur á útsvarstekjum þeirra sveitarfélaga sem höfðu mestar og minnstar útsvarstekjur á íbúa. Tekjur tekjuhæsta sveitarfélagsins af fasteignasköttum voru 30 sinnum hærri á íbúa en hjá því sem lægstar hafði tekjurnar.

Á næsta ári fellur niður eins milljarðs aukaframlag Jöfnunarsjóðs að óbreyttu og sömuleiðis endurgreiðsla vegna hækkunar tryggingagjalds en þar er um 1,4 milljarða að ræða. „Miðað við þetta á ég von á því að sveitarfélög neyðist til að fara í töluverðar gjaldskrárhækkanir núna um áramótin. Að hluta til er það til að fylgja verðlagi en einnig er það nauðsynlegt fyrir reksturinn,“ segir Halldór.

Lögðu aðgerðalista fyrir ríkið

Sveitarfélögin hafa ekkert aflögu til að leggja inn í nýja kjarasamninga, heldur þurfa að ná niður rekstrarkostnaði. „Ef ekkert verður gert til að koma til móts við kröfur okkar um að geta hagrætt til dæmis í grunnskólunum með laga- og reglugerðarbreytingum tímabundið, þá óttast ég að sveitarfélögin neyðist til að fara í uppsagnir um áramótin,“ segir Halldór. Sveitarfélögin hafa lagt fram lista fyrir ríkið um samstarfsaðgerðir sem þau telja nauðsynlegar til að ná niður kostnaði. Þetta eru leiðir sem gagnast flestum ef ekki öllum sveitarfélögum, að sögn Halldórs.

Hærra útsvar ef ríkið lækkar

Tekjustofnanefnd sveitarfélaga og ríkisins hefur ýmsa kosti til skoðunar. Elín Líndal sem á sæti í nefndinni greindi á fjármálaráðstefnu m.a. frá því að til skoðunar væri hækkun útsvars um 0,25% árið 2013 og aftur 2014 ef skattar ríkisins lækka samsvarandi.

Einnig er til skoðunar framtíðarskipan fasteignaskatts, endurskoðun á þeim grunni sem skatturinn er reiknaður á. Rædd er svonefnd blönduð leið við álagningu þar sem miðað yrði við fasteignamat, brunabótamat, endurstofnverð og fermetrafjölda. Áhugi er á að kanna möguleika sveitarfélaga á að tengjast gjaldtöku vegna umferðar í þéttbýli til uppbyggingar á gatnakerfi o.fl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert