Ekki verður hægt að halda áfram dýpkun Landeyjahafnar fyrr en á fimmtudag vegna ölduhæðar. Ekki er enn vitað hvort hvassviðrið í gær muni hægja á dýpkunarstarfi enn frekar.
Að sögn Þórhildar Elínar Elínardóttur, upplýsingafulltrúa Siglingastofnunar, að eftir því sem hún vissi best hefði enn hafi ekki verið hægt að mæla í höfninni þar sem ölduhæð sé enn of mikil fyrir dýpkunarskipin. Því sé enn ekki vitað hvort hvassviðrið sem reið yfir sunnanvert landið í gær hafi fyllt höfnina enn frekar af efni.
Hún segir að það líti út fyrir að ekki verði hægt að halda áfram með dýpkun fyrr en á fimmtudag. Ekki sé vitað hve langur tími muni líða þar til höfnin kemst aftur í gagnið.
„Dýpkunin gekk vel um daginn þegar tvö skip voru þar að störfum og ég á von á hið sama eigi við þegar hægt verður að halda áfram. Við munum taka stöðuna um leið og aðstæður eru þannig að hægt sé að eiga við þær,“ segir Þórhildur Elín.