Fréttaskýring: Hver á að lækna börnin árið 2015?

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra var sæmd fyrsta gullmerki Umhyggju á ráðstefnunni …
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra var sæmd fyrsta gullmerki Umhyggju á ráðstefnunni í gær. Með á myndinni eru Leifur Bárðarson, Ragna Marinósdóttir frkvstj. Umhyggju og Hilmar L. Davíðsson leikskólanemi. mbl.is/Ernir

„Þetta snýst ekki um það að mikill vilji meira, heldur hvort við erum í þeirri stöðu að við getum ekki einu sinni haldið því sem við höfum. Þurfum við að bakka um tíu ár?“ segir Leifur Bárðarson, yfirlæknir á gæðadeild Landspítalans og formaður stjórnar Umhyggju, félags langveikra barna.

Umhyggja stóð í gær fyrir málþinginu „Hver á þá að lækna mig?“ um stöðuna í heilbrigðisþjónustu langveikra barna. Horft var fram til ársins 2015 og þeirri spurningu varpað fram hvernig þjónusta við langveik börn yrði þá, eins og staðan er í dag. Leifur segir að ástæða sé til að hafa áhyggjur.

„Í mörgum sérgreinum eru menn komnir á aldur og ekki langt í starfslok, en það örlar ekkert á neinum nýjum til að taka við, til dæmis vegna gigtveiki barna. Það er ekki vitað til þess að neinn sé að læra þetta, og jafnvel þótt einhver læknir sé að því er ekki víst að hann komi heim. Því er eðlilegt að gigtveik börn, sem vita að þau verða gigtveik næstu árin, spyrji sig; hver á að lækna mig þá?“

Mikil og jákvæð þróun hefur orðið í barnalækningum á síðustu áratugum og Leifur segir nauðsynlegt að setja a.m.k. það markmið að verja stöðuna svo ekki verði afturför.

„Við getum hugsað okkur að það sé hægt að ná skammtímasparnaði með því að draga í land núna, en þurfum að borga það margfalt eftir fimm ár? Ef við gerum ekkert til að sporna við þessum atgervisflótta er það staðreynd að staðan verður verri árið 2015 en hún er í dag,“ segir Leifur.

Ekki meira á þau leggjandi

Í svo litlu samfélagi sem Ísland er getur brottför eins sérfræðilæknis gjörbreytt stöðu sjúklingahóps með miklar þarfir. Leifur segir ekki nýmæli að íslenskir læknar séu eftirsóttir erlendis, en þótt margir hafi kosið að vera þar um stundarsakir hafi flestir viljað koma heim á endanum, en það sé nú breytt. Því verði að búa þannig í haginn að eftirsóknarvert sé fyrir sérfræðinga að koma heim.

„Við viljum ekki missa þetta niður. Staðan er viðkvæm og ef eitthvað brestur getur svo margt hrunið um leið, það er ekki meira leggjandi á langveik börn og fólkið í kring. Við eigum að geta gefið þeim það loforð að við munum halda áfram að annast þau.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert