Spillingareinkunn Íslands lækkar

Ísland er í 11. sæti á nýjum lista stofnunarinnar Transparency International þar sem löndum er raðað eftir því hvort spilling er talin þrífast innan þeirra. Danmörk, Nýja-Sjáland og Singapúr deila efsta sætinu að þessu sinni en þar er minnsta spillingin að mati Transparency International.

Þær þjóðir, sem nú eru í 1. sæti, fá einkunnina 9,3 en gefnar eru einkunnir frá 10 niður í 0.  Transparency International segir, að einkunnir yfir 9 endurspegli pólitískan stöðugleika, rótgrónar opinberar stofnanir og góða löggjöf.

Árið 2006 var Ísland í 1. sæti lista stofnunnarinnar. Árið 2007 fór Ísland niður í 6. sætið, var í 7. sæti árið 2008 og í 10. sæti í fyrra.  Einkunn Íslands hefur lækkað jafnt og þétt, var 9,6 árið 2006, 9,2 árið 2007, 8,9 árið 2008, 8,7 í fyrra og 8,5 nú.

Þær þjóðir, sem eru neðst á listanum nú, eru  Írak, með einkunnina 1,5, Afganistan og Búrma, með 1,4, og Sómalía með einkunnina 1,1.

Þau lönd þar sem spilling er minnst í heiminum eru þessi að mati Transparency International:

  1. Danmörk, einkunn 9,3
  2. Nýja-Sjáland 9,3
  3. Singapúr 9,3
  4. Finnland 9,2
  5. Svíþjóð 9,2
  6. Kanda 8,9
  7. Holland 8,8
  8. Ástralía 8,7
  9. Sviss 8,7
  10. Noregur 8,6
  11. Ísland 8,5
  12. Lúxemborg 8,5
  13. Hong Kong 8,4
  14. Írland 8,0
  15. Austurríki 7,9
  16. Þýskaland 7,9
  17. Barbados 7,8
  18. Japan 7,8
  19. Katar 7,7
  20. Bretland 7,6.

Vefur Transparency International

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert