Verður væntanlega eitthvað breytt

Margrét Sverrisdóttir.
Margrét Sverrisdóttir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Margrét Sverrisdóttir, formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar á von á því að einhverjar breytingar verði gerðar á tillögu meirihluta ráðsins varðandi samskipti leik- og grunnskóla Reykjavíkurborgar og trúar- og lífskoðunarhópa. Tillagan var rædd á fundi ráðsins í dag en afgreiðslu frestað þar til á miðvikudaginn í næstu viku.

„Ég býst við því að efnislega verði hún nánast óbreytt en væntanlega verður orðalagi hennar breytt að einhverju leyti til þess að orðalag hennar valdi síður misskilningi," segir Margrét.

Hún segir að engin ástæða sé til þess að vera með neinn asa við afgreiðslu tillögunnar og því sjálfsagt að fresta afgreiðslu hennar.  „Í mínum huga vega þyngst umsagnir frá menntaráði og íþrótta- og tómstundaráði því tillagan snýr eingöngu að skólastarfinu. Þannig að ég vil taka það fram að það geti vel verið að hún breytist ef fram koma athugasemdir um hana," segir Margrét í samtali við mbl.is.

Munu greiða atkvæði gegn tillögunni

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lýst því yfir að þeir telji tillögu meirihlutans óþarfa og muni greiða atkvæði gegn henni í núverandi mynd, segir í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.  Á fundi mannréttindaráðs bókuðu fulltrúar Sjáflstæðisflokksins með eftirfarandi hætti í tilefni frestunarinnar: 

„Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vonast til þess að með því að fresta tillögunni geri meirihlutinn sér grein fyrir því að skoða þurfi málið betur með vilja borgarbúa að leiðarljósi.

Ein af forsendum tillögu meirihlutans var sú að fjölmargar kvartanir hefðu borist vegna heimsókna trúfélaga í skólana, ekki fylgdu þeirri staðhæfingu neinar tölulegar upplýsingar.  Nú hafa þær verið lagðar fram og kemur í ljós að einungis 24 kvartanir hafa borist skólasamfélaginu sem telur tugþúsundir.   Hins vegar hafa fulltrúum í mannréttindaráði borist á yfir þrjúhundruð kvartanir þar sem að umræddri tillögu meirihlutans er mótmælt." 

Bannað að dreifa Nýja testamentinu og Kórarnum

Meðal þess sem fram kemur í tillögu meirihlutans er að fermingarfræðsla Þjóðkirkjunnar og annarra trú- eða lífsskoðunarfélaga skal fara fram utan skólatíma. Undanfarin ár hefur skólastarf í öllum skólum farið úr skorðum í a.m.k. 2 daga á hverju hausti vegna þessa.

Heimsóknir starfsmanna trúar- og lífsskoðunarfélaga á frístundaheimili, í leik- og grunnskóla, auglýsingar eða kynningar á starfi þeirra í þessum stofnunum sem og dreifing á öðru trúarlegu efni er ekki heimil í starfi barna á vegum Reykjavíkurborgar. Þar með er talin dreifing trúarrita s.s. Nýja testamentis, Kóransins, auglýsingabæklinga og annars kynningarefnis.

Foreldrar eiga að geta treyst því að börn þeirra verði ekki fyrir trúarlegri innrætingu

Til grundvallar þessum ákvörðunum er sá vilji Reykjavíkurborgar að tryggja rétt foreldra til að ala börn sín í þeirri trúar- og lífsskoðun sem þeir kjósa  og tryggja þar með trúfrelsi þeirra. Foreldrar eiga að geta treyst því að börn þeirra verði ekki fyrir trúarlegri innrætingu í starfsemi borgarinnar. Með því vinna starfsmenn Reykjavíkurborgar samkvæmt mannréttindastefnu hennar og mannréttindasáttmála sem Ísland hefur undirgengist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka