Ægir snýr heim

Varðskipið Ægir.
Varðskipið Ægir. mbl.is/Árni Sæberg

Varðskipið Ægir er væntanlegt til Reykjavíkurhafnar í kvöld eftir rúmlega sex mánaða fjarveru. Á þeim tíma hefur skipið siglt vegalengd sem jafngildir nærri einni ferð umhverfis jörðina. Skipið mun leggja að Faxagarði kl. 19:00. 

Er skipið að koma úr lengstu ferð sem frá upphafi hefur verið farin með íslensku varðskipi. Á síðastliðnum sex mánuðum hefur Ægir siglt samtals 19.500 sjómílur,  sem eru rúmlega 36 þúsund kílómetrar. Til samanburðar má nefna að sigling umhverfis jörðina um miðbaug eru 21.600 sjómílur.
 
Ægir lagði úr Reykjavíkurhöfn þann 20. apríl sl. áleiðis til Senegal en varðskipið hefur frá byrjun maí sinnt verkefnum fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins. Var Ægir fyrst staðsettur við strendur Senegal en í júlí sigldi varðskipið til Almería á Spáni og hefur frá þeim tíma sinnt eftirliti á Miðjarðarhafi.
Á tímabilinu hefur Ægir reglulega komið til hafnar og skipt hefur verið um áhafnir. Þó eru nokkrir áhafnarmeðlimir sem völdu að sigla allt tímabilið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert