Ekki er gert ráð fyrir frekari virkjanaframkvæmdum á vegum Orkuveitu Reykjavíkur en nú standa yfir í fimm ára áætlun um fjárfestingar og rekstur samstæðunnar. Hún nær til áranna 2012-2016. Þetta á m.a. við um Hverahlíðavirkjun sem var sett á ís í fyrra.
Þar segir að ákvörðun um frekari fjárfestingu í nýjum virkjunum ráðist af
því að langtímasölusamningar á framleiðslunni séu frágengnir og
langtímafjármögnun tryggð á ásættanlegum kjörum.
Í lok árs 2010 er áformað að taka í notkun 4. áfanga Hellisheiðarvirkjunar, þar sem framleitt verður heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið, og á árinu 2011 5. áfangann, þar sem framleidd verða 90 megavött raforku, að því er segir í áætluninni.
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti fjárhagsáætlun ársins 2011 og fimm ára áætlun um fjárfestingar og rekstur fyrir árin 2012 til 2016, á fundi sínum sl. mánudag.
Framkvæmdir hefjast náist samningar
Hverahlíðavirkjun er sá kostur sem er næstur á dagskrá yfir væntanlegar virkjanaframkvæmdir. Hún hefur hins vegar verið sett á ís sem og aðrir virkjunarkostir, t.d. Bitruvirkjun. OR útilokar ekki að framkvæmdin komist aftur á dagskrá enda eru viðræður um orkusölu í gangi.
Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR, segir í samtali við mbl.is að í fjárhagsáætlun þessa árs, þ.e. ársins 2010, hafi Hverahlíðavirkjun tekin út um óákveðinn tíma. Það hafi verið afstaða OR að ráðast ekki í virkjunina fyrr en sölusamningar og fjármögnun lægi fyrir. Það sem komi nú fram í fimm ára áætluninni sé staðfesting á þessu.
OR var búið að fjárfesta í tækjabúnaði vegna Hverahlíðavirkjunar, m.a. túrbínum, og gera samning við Jarðboranir. Að sögn Eiríks hafa verið greiddar bætur til Jarðborana og Mitsubishi Heavy Industries vegna þeirra tafa sem þegar hafa orðið.
Eiríkur bendir á að OR eigi nú í viðræðum við tvo aðila um orkusölu, en gert er ráð fyrir að sú orka komi frá Hverahlíðavirkjun. Um er að ræða orku vegna álvers í Helguvík og orku vegna kísilhreinsunar í Ölfusi.
Náist samkomulag um langtímasölu og langtímafjármögnun verði vinnu við virkjunina haldið áfram. „Þetta er alls ekki útilokað. Það er alveg ljóst að við erum í þessum viðræðum. Ef þessar viðræður leiða til samninga þá kemur rafmagnið frá þessari virkjun,“ segir Eiríkur.