Fjöldi fóstureyðinga hefur aukist á flestum Norðurlandanna frá árinu 1990. Tíðni þeirra er langhæst á Grænlandi, en þar eru að jafnaði framkvæmdar 1064 fóstureyðingar fyrir hverjar þúsund fæðingar. Fæstar voru fóstureyðingar í Færeyjum, 68 fyrir hverjar þúsund fæðingar.
Á Íslandi eru gerðar um 200 fóstureyðingar fyrir hverjar þúsund fæðingar. Þetta kemur fram í Norrænu hagtöluárbókinni, sem kom út í dag.
Frá árinu 1990 hefur fóstureyðingum fjölgað á Íslandi, Grænlandi, Álandseyjum, í Noregi og Svíþjóð. Þeim hefur hins vegar fækkað í Danmörku og Finnlandi.
Í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og á Grænlandi er það alfarið undir hinni þunguðu komið hvort hún velur að láta eyða fóstri. Í Færeyjum, Finnlandi, á Álandseyjum og Íslandi þurfa hins vegar félags- eða læknisfræðilegar ástæður að koma til.