„Gott að vera kominn heim“

Skipverjum á Ægi var vel fagnað af ættingjum og samstarfsmönnum.
Skipverjum á Ægi var vel fagnað af ættingjum og samstarfsmönnum. mbl.is/Arni Sæberg

„Það er gott að vera kominn heim. Þetta er búið að vera mikil lífsreynsla og gaman að fást við þetta,“ sagði Guðmundur Stefán Valdimarsson bátsmaður á varðskipinu Ægi sem í kvöld kom heim eftir sex mánaða útiveru í Miðjarðarhafi og við Senegal.

Dætur Guðmundar, Guðrún, Þuríður og Jóna fögnuðu pabba sínum innilega þegar feðginin hittust. Þær sögðust vera búnar að bíða spenntar eftir að fá hann heim.

15 menn voru áhöfn Ægis sem lagðist að bryggju við Faxagarð í gærkvöldi. Flestir skipverjar hafa komið í frí hér heima á meðan á verkefninu stóð.

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, tók á móti skipverjum. Hann sagði að verkefnið hefði gengið vel. „Skipið er búið að sigla nánast einu sinni í kringum hnöttinn. Skipið er búið að sigla samtals 19.500 sjómílur,  sem eru rúmlega 36 þúsund kílómetrar.“ Ummála jarðar er um 40 þúsund kílómetrar.

Georg sagði að farið yrði yfir Ægi næstu vikur og lagfært það sem þyrfti að gera við. Það skýrðist síðan á næstu mánuðum hvert framhaldið yrði. „En mér finnst ólíklegt að við getum haldið úti tveimur skipum í fullum rekstri í vetur.“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert