Fjölmargir íslenskir læknar taka að sér tímabundna vinnu í útlöndum til að láta enda ná saman. „Við læknar erum ekkert síður í klemmu fjárhagslega en aðrir þegnar þjóðarinnar. Menn eru í misgóðum málum þar.“
Þetta segir Guðmundur Karl Snæbjörnsson, sem rekur fyrirtæki sem aðstoðar lækna við að taka að sér afleysingaverkefni í Svíþjóð en með því gefst læknum kostur á að vinna sér inn íslensk mánaðarlaun á nokkrum dögum.
Guðmundur segir eftirspurn eftir íslenskum læknum í Svíþjóð mjög mikla. „Eftirspurnin er svo mikil að ég held að við gætum tæmt landið og það mundi ekki finna fyrir því. Eftirspurnin yrði áfram alveg öskrandi í Skandinavíu,“ segir Guðmundur Karl í Morgunblaðinu í dag en þar er nánar fjallað um þetta mál.