Hæstiréttur staðfesti í gær gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir konu sem er grunuð um fjölda afbrota. Konan segist hafa neytt morfíns daglega í rúm tuttugu ár, með hléum þó. Segist hún vera hjartveik og HIV smituð. Er henni gert að sitja í gæsluvarðhaldi til 19. nóvember.
Konan hefur verið dæmd fyrir fjölda afbrota, síðast í tólf mánaða fangelsi árið 2007. Í júlí var gefin út ákæra á hendur henni fyrir fjölmörg brot og átti að þingfesta málið í héraðsdómi þann 14. október sl. Þar sem konan mætti ekki var gefin út handtökuskipun á hendur henni.