Keppni í graskersútskurði verður í Kringlunni næsta laugardag í tilefni hrekkjavökunnar. Veitingastaðurinn Á næstu grösum stendur fyrir keppninni og fer hún fram á veitingastað þeirra í verslunarmiðstöðinni.
Öllum er frjálst að taka þátt og grasker og áhöld til útskurðar verða á staðnum.
Þátttökugjald er litlar 500 krónur, en þeir sem taka þátt geta átt von á margvíslegum vinningum. Hægt er að dunda sér við útskurð frá kl 10 - 16, en þá lýkur keppninni og dómararnir taka við.
Dómarar eru: Áslaug Snorradóttir, ljósmyndari, Hjördís Reykdal Jónsdóttir, skartgripahönnuður og blómaskreytingakona og Marentza Poulsen, smurbrauðsjómfrú.
Þær þykja allar annálaðir fagurkerar, segir í fréttatilkynningu og munu þær tilkynna úrslitin kl. 17.