Slapp ómeidd í hálkuóhappi

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, slapp ómeidd eftir að hafa misst bíl sinn útaf veginum við Munaðarnes í Borgarfirði í gærkvöldi. Mikil hálka var á þessum slóðum en Ólína var að fara fram úr annarri bifreið þegar óhappið varð. Hún greinir frá þessu á bloggvef sínum á Eyjunni.

„Þessar sekúndur (eða mínútur) sem liðu frá því bíllinn fór að rása með vaxandi slink, þar til hann hafnaði úti í móa eftir að hafa farið tvo heila hringi á flughálum veginum – þær voru eins og heil eilífð. Undarlegt hvað hugurinn var samt rór og greinandi meðan á þessu stóð. „Á ég að láta hann fara út af? Nei ég reyni einu sinni enn að halda honum inni á . Úff, þetta er orðið stjórnlaust, hann tekur hring –  best að fylgja hreyfingunni og reyna svo að stefna honum út af veginum. Nú, annar hringur – hvar endar þetta. Nú velt ég!“

Sver það, þetta var ég að hugsa meðan á þessu stóð. En bíllinn valt ekki – hann endaði á hjólunum og í gangi u.þ.b. 20 metra frá veginum, bílljósin þvert á vegstefnuna.

Ég var sumsé á leið heim frá Blönduósi í kvöldmyrkrinu, eftir fund með sveitarstjórnarmönnum þar í dag, var komin í námunda við Munaðarnes í Borgarfirði og ætlaði að taka fram úr öðrum bíl sem var á rólegri ferð. Það var ekki nokkur leið að átta sig á þeirri flughálku sem skyndilega hafði myndast þarna. Að vísu gaf hitamælirinn í bílnum vísbendingu, því hann féll úr 3° niður í -1° á skömmum tíma án þess að ég tæki eftir því fyrr en of seint.  En ekki hafði ég fyrr tekið í stýrið til að taka fram úr en bíllinn fór að rása. Það var mildi að ég skyldi ekki slengjast utan í hinn bílinn – en það slapp til.

Manngreyið í þeim bíl fylgdist skelfingu lostinn með þessum darraðardansi góða stund áður en ég endaði utanvegar. Þegar ég hafði jafnað mig, prófaði ég að aka bílnum af stað og upp á veginn – og það gekk. Merkilegt nokk, þá virðist ekkert að bílnum (þetta er 10 ára gamall jeppi sem greinilega þolir ýmislegt). Ég lét manninn vita að allt væri í lagi með mig, og við héldum bæði leiðar okkar," skrifar Ólína.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert