Skipulagsbreytingar hafa verið gerðar hjá Símanum og hefur 29 starfsmönnum verið sagt upp, bæði stjórnendum og almennum starfsmönnum.
Fram kemur í tilkynningu að forsvarsmenn Símans hafi kynnt nýtt skipulag fyrirtækisins á fundi með starfsfólki. Deildir hafi verið sameinaðar og stjórnendum og starfsfólki fækkað en áhersla verði lögð á að þjónusta við viðskiptavini skerðist ekki við þessar breytingar.
„Efnahagsástandið í kjölfar hrunsins hefur komið við Símann eins og önnur fyrirtæki á Íslandi. Einkaneysla hefur minnkað og fá teikn eru á lofti um að það sé að breytast. Þá hefur markaðshlutdeild Símans dregist saman eins og kunnugt er. Alls er 29 starfsmönnum sagt upp,“ segir í tilkynningunni.
„Markmið okkar með þessum breytingum er að ná fram hagræði í rekstrinum, en jafnframt verður lögð áhersla á að þjónusta við viðskiptavini skerðist ekki við þessar breytingar. Við höfum frá ársbyrjun 2008 unnið markvisst að því að
lækka kostnað í rekstrinum án þess að fækka starfsfólki og það hefur gengið í samræmi við áætlanir. Aðstæðurnar nú eru hins vegar afar óvenjulegar. Mikill almennur samdráttur í eftirspurn hefur leitt til þess að tekjurnar hafa lækkað hraðar en búast mátti við. Því er nauðsynlegt að grípa til aðgerða,“ er haft eftir Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra Símans, í tilkynningu.