Lögreglumenn á Vestfjörðum mótmæla harðlega þeim niðurskurði sem boðaður hefur verið hjá lögregluembættum landsins, segir í samþykklt sem gerð var á félagsfundi í Lögreglufélagi Vestfjarða (LV).
„Fundurinn vill minna á að niðurskurður sem varð á fjárlagaárinu 2010 olli því að ein staða forvarnafulltrúa við embætti lögreglustjórans á Vestfjörðum var lögð niður vegna niðurskurðar. Auk þessa muni, að óbreyttu, verða lagðar niður tvær stöður lögreglumanna um nk. áramót vegna niðurskurðaáforma á árinu 2011 hjá sama embætti.
Þannig er fyrirhugað að lögreglumönnum á Vestfjörðum verði fækkað um þrjá lögreglumenn eða um 17 % til að mæta boðuðum niðurskurði. Það gefur auga leið að slíkur niðurskurður hefur í för með sér lakari þjónustu við íbúa og þá sem leið eiga um umdæmið. Þeim markmiðum sem lögreglan í landinu hefur sett sér að halda uppi sýnilegri löggæslu, eflingu rannsókna og skilvirkri þjónustu við íbúa landsins, verður ekki náð, hvort heldur á Vestfjörðum eða hjá öðrum embættum landsins, gangi áform um frekari niðurskurð til löggæslumála eftir.
Þá ítrekar félagsfundur LV þau mótmæli sem fram koma í ályktun félagsins frá 28. október 2009 varðandi fyrirhugaða sameiningu lögregluliðanna á Vestfjörðum og Vesturlandi. Fundurinn telur slíka sameiningu ekki til þess fallna að efla og styrkja lögregluna, sérstaklega er horft er til landfræðilegra sjónarmiða. Einnig eru þessi áform í þversögn við áætlun ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga er hefur fengið heitið „20/20“.
Fundurinn skorar á stjórnvöld að efla og styrkja lögregluna í landinu með auknum fjárheimildum og fjölgun lögreglumanna,“ segir í samþykktinni.